Ferill 340. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 491  —  340. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um framkvæmd nauðungaruppboða.


     1.      Hyggst ráðherra grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir uppboð eigna að verðmæti langt umfram þær skuldir sem skuldara er ætlað að greiða? Hvenær þá og með hvaða hætti?
    Ráðuneytið hefur hafið athugun annars vegar almennt á framkvæmd sýslumanna á grundvelli laga um nauðungarsölu, nr. 90/1991, og hins vegar sérstaklega framkvæmd sýslumanna á grundvelli 37. gr. laganna sem fjallar um úrræði þegar boð í eign eru svo lág að þau fara fjarri líklegu markaðsverði eignar. Markmiðið er að tryggja vandaða framkvæmd nauðungarsölu með hagsmuni allra málsaðila að leiðarljósi. Í þessu skyni hefur ráðuneytið í samráði við sýslumannaráð kallað eftir tillögum sýslumanna að verklagsreglum og eftir atvikum lagabreytingum með framangreint í huga. Þá hefur ráðuneytið jafnframt haft til skoðunar ábendingar ÖBÍ réttindasamtaka sem kynntar voru fyrir ráðherra á fundi hinn 21. ágúst 2023. Athugun er ekki lokið og því liggur ekki fyrir hvaða breytingar eru nauðsynlegar til að ná framangreindu markmiði né hvenær þær koma til framkvæmda.

     2.      Telur ráðherra að nauðungaruppboð séu auglýst með fullnægjandi hætti? Ef ekki, hvaða önnur úrræði standa til boða?
    Meðal þess sem skoðun ráðuneytisins beinist að er framkvæmd sýslumanna við birtingu auglýsinga um uppboð á grundvelli 2. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 64. gr. laga um nauðungarsölu, nr. 90/1991, en þar er kveðið á um að auglýsingu um uppboð skuli birta í dagblaði, á vef sýslumanna eða með öðrum samsvarandi hætti. Hefur ráðuneytið eins og fyrr greinir þegar hafið samráð við sýslumannaráð um leiðir til að bæta framkvæmdina og kallað m.a. eftir afstöðu ráðsins um það hvort birting auglýsinga sé annars vegar samræmd milli sýslumannsembætta og hins vegar hvernig uppboð eigna séu almennt auglýst auk tillagna til úrbóta.